Djúsí súkkulaðikaka með dásamlegu mjólkursúkkulaðikremi
Ég er mjög spennt að deila þessari uppskrift með ykkur. Ég hef bakað botnana í þessari köku síðustu 13 ár og þeir eru einhvernveginn alltaf lang bestir. En mér þykir gaman að prófa mig áfram með nýjar útfærslur af kremi. Kremið sem fylgir þessari uppskrift er svo fullkomið, mjólkursúkkulaði fudge krem úr öðrum heimi hreinlega!
Fyrir þá sem fíla ekki kaffikeim í krem mæli ég með að þið sleppið kaffinu.
Ég mæli með að þið prófið þessa, hún er alltaf skotheld!
- Undirbúningur: 20 min
- Baksturstími: 30 min
- Samtals: 55 min
- Fjöldi: 15-20
- Erfiðleikastig: Auðvelt
Innihald
Súkkulaðikaka
- 400 g sykur
- 210 g Kornax hveiti
- 75 g kakó
- 1.5 tsk lyftiduft
- 1.5 tsk matarsódi
- 1 tsk salt
- 2 stk egg
- 110 ml olía (grænmetis)
- 220 ml mjólk
- 220 ml heitt vatn
- 2 tsk vanilludropar
Mjólkursúkkulaðikrem
- 500 g mjólkursúkkulaði
- 250 g smjör
- 65 g flórsykur
- 425 ml rjómi
- 2 msk kaffi (espresso), má sleppa
- 1/2 tsk salt
Aðferð
Súkkulaðikaka
- 1)
Við byrjum á því að hita ofninn í 175°(viftu).
- 2)
Næst setjum við öll þurrefnin saman í hrærivélaskál og hrærum saman.
- 3)
Þegar við höfum blandað þurrefnunum vel saman bætum við eggjum, mjólk, olíu, heitu vatni og vanilludropum saman við og hrærum þar til allt hefur blandast vel saman.
- 4)
Næst smyrjum við þrjú 20cm. form með olíu, setjum bökunarpappír í botninn og smyrjum aftur.
- 5)
Svo hellum við deginu jafnt í öll form og bökum í 20-25 mínútur eða þar til pinni kemur hreinn upp úr kökunum ( mér þykir best að vigta deigið og skipta því jafnt niður í formin til þess að fá alla botna jafn stóra).
- 6)
Um leið og botnarnir koma úr ofninum losum við hliðarnar á formunum og hvolfum botnunum á bökunarpappír eða kæligrind.
Mjólkursúkkulaðikrem
- 1)
Við byrjum á því að setja öll hráefnin í pott og bræðum á lágum hita, þetta tekur um það bil 10 mínútur.
- 2)
Næst tökum við blönduna úr pottinum og leyfum að standa á borðinu meðan hún kólnar aðeins. Þegar hún hefur aðeins kólnað setjum við hana inn í ísskáp.
- 3)
Við leyfum kreminu að vera inn í ískáp í um klukkustund og hrærum af og til í því ( ca. 10 mínútna fresti) þar til kremið er orðið nógu þykkt til að sprauta á kökuna.
Gott er að vera með það í stærra íláti frekar en minna.
Erfiðleikastig:
Erfiðleikastig: | Auðvelt |