Snickers brownie bitar

Margt hef ég nú bakað sem er gott en þessi bitar eru eitthvað annað. Þeir innihalda mjög margar hitaeiningar en eru svo þess virði, þið bara verðið að prófa þá!

Ég elska að vafra um bökunarsíður og finna innblástur og þessa bita sá ég hjá henni Manuelu sem er með síðuna passion for baking. Ég gerði mína mini útgáfu af þeim og á svo sannarlega eftir að gera þá aftur.

Prenta uppskrift

  • Undirbúningur: 15 min
  • Baksturstími: 35 min
  • Samtals: 1 klst 15 min
  • Fjöldi: ca 24 bitar
  • Erfiðleikastig: Miðlungs

Innihald

Brownie botn

  • 125 g súkkulaði
  • 65 g smjör
  • 2 stk egg
  • 175 g Kornax hveiti
  • 1.5 msk kakó
  • 1/2 tsk salt
  • 1 tsk vanilludropar
  • 175 g sykur

Karamella

  • 150 g sykur
  • 45 ml vatn
  • 80 ml rjómi
  • 1/2 tsk salt
  • 60 g salthnetur

Súkkulaðihjúpur

  • 150 g súkkulaðihjúpur

Aðferð

Brownie botn

  • 1)

    Við byrjum á því að bræða saman súkkulaði og smjör yfir vatnsbaði. Tökum blönduna síðan til hliðar og leyfum að kólna örlítið.

  • 2)

    Næst þeytum við saman egg, sykur og vanilludropa í um það bil 30 sekúndur.

  • 3)

    Svo hrærum við súkkulaðiblöndunni saman við í um það bil 30 sekúndur. Mikilvægt að hræra ekki of mikið.

  • 4)

    Svo sigtum við hveiti, kakó og salt saman við og hrærum (fold) varlega saman við með sleikju þar til þurrefnið er ekki sjáanlegt.

  • 5)

    Næst smyrjum við sílíkon formið vel með olíu og hellum deginu í formin. Við setjum deig í ca. 1/3 til 1/2 af formunum.
    Ég notaði mini bollaköku sílikonform.

  • 6)

    Svo fer þetta í ofninn á 175° í um það bil 15 mínútur.

  • 7)

    Þegar kökurnar koma úr ofninum leyfum við þeim að kólna örlítið á bekknum og smellum þeim svo í frysti í formunum.

Saltkaramella

  • 1)

    Við byrjum á því að setja sykur og vatn í lítinn pott eða pönnu og leyfum að malla þar til við fáum fallegan brúnan (amber litaðan) lit.

  • 2)

    Þegar við náum þessum fallega amber lit á karamelluna tökum við pönnuna/pottinn af hellunni og hrærum rjómanum saman við í 3 skrefum.

  • 3)

    Síðan hrærum við saltinu saman við og leyfum blöndunni að koma upp að suðu og malla í 1-2 mínútur, tökum hana síðan og hellum í skál eða eldfast mót og leyfum að kólna í 20-30 mínútur.

  • 4)

    Þegar við höfum leyft karamellunni að kólna í 20-30 mínútur hrærum við salthnetunum saman við.

Samsetning

  • 1)

    Við byrjum á því að taka brownie kökurnar úr frystinum.

  • 2)

    Næst fyllum við upp í mótin með karamellunni og setjum aftur í frysti í um það bil 20 mínútur.

  • 3)

    Á meðan að bitarnir eru í frysti bræðum við súkkulaðihjúpinn yfir vatnsbaði.

  • 4)

    Þegar að súkkulaðið er orðið klárt tökum við bitana úr frysti og dýfum þeim í súkkulaðihjúpinn, pössum að súkkulaðið nái niðurfyrir karamelluna.

  • 5)

    Að lokum leyfum við bitunum að bíða á kæligrind eða bökunarpappír þar til súkkulaðið hefur storknað og fáum okkur svo bita af þessu guðdómalega nammi.

Erfiðleikastig:

Erfiðleikastig:Miðlungs
Fyrri grein Næsta grein