Dásamleg súkkulaðikaka með súkkulaði og karamellukremi

Er eitthvað betra en nóg af súkkulaði? Ef þið eruð súkkulaði unnendur eins og ég ætti þessi djúsí kaka alls ekki að svíkja ykkur. Botnarnir eru blautir og svo djúsí og góðir og kremið létt og fullt af súkkulaði og karamellu.

Kakan fékk páskaútlit og að sjálfsögðu í mínum uppáhalds litum

Nú nálgast páskarnir og fannst mér því tilvalið að gera aðra útfærslu á páskaköku. Kökuna skreytti ég með lituðu smjörkremi og notaði stúta nr. 2D og 865, Peach of my heart sprinkels og fallegum litlum páskaeggjum sem ég keypti í lausu í Hagkaup.

Peach of my heart sprinkles úr Bake me a wish Ísland.
Lítil súkkulaðiegg úr Hagkaup.
Öll Hráefnin í þessa uppskrift finnið þið í verslunum Hagkaups
Prenta uppskrift

  • Undirbúningur: 30 min
  • Baksturstími: 25 min
  • Samtals: 1 klst 45 min
  • Fjöldi: 15-20
  • Erfiðleikastig: Miðlungs

Innihald

Súkkulaðibotnar

  • 600 g sykur
  • 315 g Kornax hveiti
  • 115 g kakó
  • 2 1/4 tsk matarsódi
  • 2 1/4 tsk lyftiduft
  • 1 1/2 tsk salt
  • 3 stk egg
  • 165 ml olía
  • 330 ml mjólk
  • 330 ml heitt vatn
  • 3 tsk vanilludropar

Smjörkrem

  • 1 kg smjör, við stofuhita
  • 1 kg flórsykur
  • 7 msk rjómi, má líka vera mjólk
  • 2 tsk vanilludropar

Súkkulaðikrem með karamellu

  • 150 g suðusúkkulaði með karamellu og satli, brætt
  • 100 g karamellukurl
  • 250 g smjörkrem

Aðferð

Súkkulaðibotnar

  • 1)

    Við byrjum á því að hita ofninn 175°(viftu)

  • 2)

    Næst setjum við öll hráefnin í hrærivélaskál og hrærum saman.

  • 3)

    Þegar við höfum hrært öllum þurrefnunum vel saman bætum við eggjum, olíu, heitu vatni, mjólk og vanilludropum saman við og hrærum þar til allt hefur blandast vel saman.

  • 4)

    Næst  penslum við þrjú 20cm bökunar form með olíu og setjum bökunarpappír í botninn, penslum svo aftur yfir með olíu.

  • 5)

    Svo fara botnarnir inn í ofn við 175°(viftu) í um það bil 25 mínútur eða þar til pinni kemur hreinn upp úr kökunni.

  • 6)

    Þegar botnarnir koma úr ofninum losum við hliðarnar á forminu og hvolfum úr þeim á bökunarpappír eða kæligrind.

Smjörkrem

  • 1)

    Við byrjum á því að þeyta smjör þar til það verður létt og ljóst.

  • 2)

    Næst bætum við flórsykri, rjóma og vanilludropum saman við og þeytum þar til kremið er orðið vel ljóst og fluffy.

Súkkulaðikrem með karamellu

  • 1)

    Við byrjum á því að bræða súkkulaðið yfir vatnsbaði, leyfum því síðan að kólna örlítið.

  • 2)

    Næst setjum við smjörkrem (250g) í hrærivéla skál og þeytum brædda súkkulaðið saman við kremið.

  • 3)

    Að lokum hrærum við karamellukurlinu saman við.

Samsetning

  • 1)

    Við byrjum á því að setja smá smjörkrem á platta eða disk sem kakan á að fara á og setjum síðan fyrsta botninn ofaná.

  • 2)

    Síðan fer súkkulaðikrem ofaná og næsti botn ofnaá kremið.

  • 3)

    Setjum aftur súkkulaðikrem ofaná botn númer tvö og setjum síðan síðasta botninn ofaná.

  • 4)

    Næst setjum við kökuna inn í kæli og leyfum kreminu að stífna aðeins.

  • 5)

    Þegar kremið hefur stífnað á kökunni setjum við þunnt lag af smjörkremi utan um alla kökuna og setjum hana síðan aftur í kæli. Með því að gera þetta komum við í veg fyrir að fá mylsnu í kremið.

  • 6)

    Síðan setjum við aftur krem utan um kökuna og skreytum af vild.

Eriðleikastig:

Erfiðleikastig:Miðlungs
Fyrri grein Næsta grein