Ombre vanillukaka með rjómaostakremi og saltkaramellu

Þessi vanillukaka er án efa mín allra uppáhalds! Það er fátt skemmtilegra en að gera litríkar og fallegar kökur og ég tala nú ekki um ef þær eru svolítið vel bleikar. Vanillubotnarnir í þessari köku er algjörlega mínir uppáhaldsbotnar, ekki of þéttir og guðdómlega mjúkir.

Ég mæli innilega með að þið prófið að skella í þessa. Ef ykkur langar að sjá hvernig ég skreytti hana þá finnið þið það í highlights á instagram hjá mér.

öll Hráefnin í þessa uppskrift finnið þið í verslunum Hagkaups
Prenta uppskrift

 • Undirbúningur: 1 klst
 • Baksturstími: 25 min
 • Samtals: 2 klst
 • Fjöldi: 10-15
 • Erfiðleikastig: Miðlungs

Innihald

Vanillubotnar

 • 400 g sykur
 • 225 g smjör, við stofuhita
 • 350 g Kornax hveiti
 • 1 msk vanilludropar
 • 2 1/2 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk salt
 • 6 stk eggjahvítur
 • 300 ml mjólk
 • 60 ml olía
 • Bleikur matarlitur

Saltkaramella

 • 200 ml rjómi
 • 180 g sykur
 • 80 ml sýróp
 • 1 tsk sjávarsalt
 • 1 tsk smjör

Smjörkrem

 • 900 g smjör
 • 900 g flórsykur
 • 3 tsk vanilludropar
 • 8 msk rjómi

Rjómaostakrem

 • 250 g smjörkrem
 • 200 g Philadelphia rjómaostur, við stofuhita

Aðferð

Vanillubotnar

 • 1)

  Við byrjum á því að stilla ofninn á 175°(viftu).

 • 2)

  Næst setjum við smjör (við stofuhita) og sykur saman í hrærivélaskál og þeytum þar til verður ljóst og létt.

 • 3)

  Svo fara eggjahvíturnar rólega saman við, lítið í einu.

 • 4)

  Næst hærum við 1/3 af þurrefnunum saman við blönduna.

 • 5)

  Svo hrærum við 1/2 af blautefnunum (mjólk, olíu og vanilludropum) saman við.

 • 6)

  Þá hrærum við næsta 1/3 af þurrefnunum saman við.

 • 7)

  Síðan restinni af blautefnunum.

 • 8)

  Að lokum fer síðasti skammturinn af þurrefnunum. Gott er að hræra degið ekki of mikið en samt nóg til þess að allt sé komið saman.

 • 9)

  Næst skiptum við deiginu niður í 4 skálar og litum 3 parta með misbleikum lit en skiljum eina eftir án þess að lita.

 • 10)

  Næst penslum við formin með olíu og setjum bökunarpappír í botninn og penslum olíu á pappírinn.Ég vigtaði ca 380-400 gr af degi í fjögur 15cm. form. Ef það er afgangur er hægt að nýta það í bollakökur.

 • 11)

  Næst eru botnarnir bakaðir við 175°í 20-25 mínútur eða þar til pinni kemur hreinn upp úr þeim.

 • 12)

  Um leið og botnarnir eru bakaðir losum við hliðarnar og hvolfum úr formunum á bökunarpappír eða kæligrind.

Saltkaramella

 • 1)

  Við setjum öll hráefnin í pott og sjóðum í nokkrar mínútur eða þar til karamellan fer aðeins að þykkna, þá tökum við hana af hitanum og hellum í eldfastmót og leyfum að kólna.

Smjörkrem

 • 1)

  Við byrjum á því að þeyta smjörið þar til það verður létt og ljóst.

 • 2)

  Síðan bætum við flórsykrinum, rjómanum og vanilludropunum saman við og þeytum þar til kremið verður vel ljóst og létt.

Rjómaostakrem

 • 1)

  Við þeytum saman 250 g smjörkrem og 200 g rjómaost.

Samsetning

 • 1)

  Mér finnst best að setja kökuna saman þegar botnarnir eru frosnir en það er alls ekkert nauðsynlegt.

 • 2)

  Við byrjum á því að setja smjörkremdoppu á platta og setjum mest bleika botninn neðst, síðan rjómaostakrem og karamellu yfir. Svona röðum við botnunum saman koll af kolli og setjum svo kökuna í kæli.

 • 3)

  Þegar kakan er búin að vera smástund í kæli setjum við smjörkrem utan um hana og skreytum af vild. Þið getið séð video af hvernig ég skreytti kökuna í highlights á instagram hjá mér.

Erfiðleikastig:

Erfiðleikastig:Miðlungs

Fyrri grein Næsta grein