Dýrðlegt sykurlaust döðlugott með poppi

Ég geri ekki oft eitthvað sykurlaust en þegar ég er að reyna að halda mig frá sykri finnst mér gott að eiga eitthvað inn í ísskáp sem slekkur í sykurlönguninni og eitthvað sem mér þykir alveg hrikalega gott.

Ég hef ansi oft gert þetta venjulega döðlugott með Rice krispies en eftir að ég rakst á uppskrift frá henni Maríu Kristu (@kristaketo) þar sem hún notaði popp í staðinn ákvað ég að prófa það í minni uppskrift þar sem ég er algjör popp fíkill.

Ég mæli með að þið prófið þessa. Ef þið eruð viðkvæm fyrir hnetur eða finnst aðrar betri en hinar er alveg hægt að sleppa þeim alveg eða setja það sem ykku finnst gott.

Öll Hráefnin í þessa uppskrift finnið þið í verslunum Hagkaups
Prenta uppskrift

  • Undirbúningur: 30 min
  • Samtals: 30 min
  • Fjöldi: 20-40 bitar
  • Erfiðleikastig Auðvelt

Innihald

Döðlugott með poppi

  • 400 g döðlur
  • 300 g smjör
  • 100 g sukrin gold
  • 160 g popp
  • 50 g kasjúhnetur
  • 50 g pekanhnetur
  • 50 g salthnetur
  • 200 g sykurlaust mjólkursúkkulaði, ég notaði frá Valor

Aðferð

Döðlugott með poppi

  • 1)

    Við byrjum á því að saxa niður döðlur og hnetur.

  • 2)

    Næst fara döðlurnar, smjörið og sukrin gold í pott og er brætt saman á vægum hita.

  • 3)

    Við hrærum saman poppið og söxuðu hneturnar.

  • 4)

    Svo blöndum við poppinu saman við döðlublönduna.

  • 5)

    Setjum bökunarpappír í mót og þjöppum poppblöndunni í formið og setjum í kæli/frysti.

  • 6)

    Næst bræðum við súkkulaðið yfir vatnsbaði og hellum síðan yfir döðlugottið og dreifum jafnt úr og setjum aftur í kæli/frysti.

  • 7)

    Að lokum skerum við þetta dásamlega döðlugott niður í bita og njótum.

Erfiðleikastig

ErfiðleikastigAuðvelt
Fyrri grein Næsta grein