Langbestu kleinurnar
Þegar ég var yngri var mamma mjög dugleg að baka og voru kleinur eitt af því sem oft var til, þetta var eitt af mínum allra uppáhalds dögum þegar fjölskyldan kom saman í eldhúsinu að steikja kleinur og svo settust allir niður með ískalda mjólk og heitar kleinur. Mér finnst dásamlegt að halda þessari hefð áfram og finnst stelpunum mínum ótrúlega notalegt þegar við erum öll fjölskyldan í eldhúsinu að stússa saman.
Ég hef aðeins verið að prófa mig áfram til að ná kleinunum eins léttum og ég get. Þetta eru án efa langbestu kleinur sem ég hef smakkað þó ég segi nú sjálf frá, en passa þarf að hnoða þær alls ekki of mikið og leyfa deiginu að vera eins blautu og hægt er en setja bara nóg af hveiti þegar degið er rúllað út. Svo er auðvitað leynihráefni sem er mjög mikilvægt en það er Royal karamellubúðingur, hvern hefði grunað að það væri hann sem myndi gera kleinurnar svona ómótstæðilegar!
Mæli klárlega með að þið prófið þessar og auðvitað er líka hægt að gera kleinuhringi úr uppskriftinni í stað þess að gera kleinur.
- Undirbúningur: 30 min
- Baksturstími: 35 min
- Samtals: 1 klst 3 min
- Erfiðleikastig: Auðvelt
Innihald
Kleinur
- 1200 g Kornax hveiti
- 180 g sykur
- 1 pakkning Royal karamellubúðingur
- 4 tsk lyftiduft
- 1,5 tsk matarsódi
- 1 tsk hjartasalt
- 70 g smjör, brætt
- 250 g hreint skyr
- 600 ml súrmjólk
- 1 stk egg
- 1,5 tsk vanilludropar
- 1,5 tsk kardimommu dropar
- 1 kg palmin kókosolía
Aðferð
Kleinur
- 1)
Við byrjum á því að blanda öllum þurrefnum saman en geymum um það bil 200 g af hveitinu til hliðar.
- 2)
Næst bræðum við smjörið og blöndum því ásamt skyrinu, súrmjólkinni, egginu, vanilludropunum og kardimommu dropunum saman við þurrefnin. Gott er að hnoða deigið ekki allt of mikið svo kleinurnar verði sem léttastar.
- 3)
Nú fer palmin kókosolían í pott og við leyfum henni að hitna meðan við rúllum út og snúum kleinurnar.
- 4)
Næst setjum við vel af hveiti á borðið, hnoðum deigið örlítið bara svo það klessist minna og fletjum það svo út.
Skerum út kleinurnar og snúum. - 5)
Að lokum steikjum við kleinurnar þegar olían er orðin nóu heit, gott er að setja fyrst smá afskorning út í olíuna til þess að sjá hvort að hún sér orðin nóu heit. Þegar fallega gylltur litur er komin á hliðina sem snýr ofaní olíuna snúum við þeim við og tökum svo úr olíunni þegar sami litur er komin á alla kleinuna.
Erfiðleikastig:
Erfiðleikastig: | Auðvelt |